Birgir Bieltvedt hefur verið umfangsmikill í fjárfestingum sínum allt frá árinu 2004, jafnt hér á landi sem erlendis, og velta félög þau sem hann er leiðandi fjárfestir í yfir 10 milljörðum króna og hjá þeim starfa yfir 1.000 manns. Í heildina reka félögin tæplega 50 veitingastaði og áætlað er að 25 nýir veitingastaðir opni á árinu, þar af 10 á Íslandi. Fjárfestingasaga Birgis spannar áhugaverða tíma í íslensku viðskiptalífi og sögu, allt frá þenslutímum til kreppuára. Rauði þráðurinn í viðskiptasögu Birgis er veitingakeðjan Domino´s sem hann kom að því að flytja til landsins árið 1993 en fjárfesti svo sjálfur í rúmum tíu árum seinna. Hann sagði þó fljótlega skilið við þá fjárfestingu þar sem önnur umfangsmikil verkefni erlendis kölluðu, þar á meðal víðfræg fjárfesting hans og Baugs Group í Magasin du Nord í Danmörku. Á árunum eftir efnahagskreppuna fjárfesti Birgir þó aftur í Domino´s á Íslandi, með það fyrir augum að færa starfsemi keðjunnar til Skandinavíu og er það verkefni nú vel á veg komið. Í dag er Birgir auk þess með fjölmörg járn í eldinum sem tengjast meðal annars fjárfestingum í íslenskum veitingastöðum og útrás Gló á komandi misserum.
↧